21. maí 2025

Slæm samskipti bergmála á vinnustaðnum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Slæm samskipti bergmála á vinnustaðnum

Í dag fór fram fræðslufundur á vegum Samtaka atvinnulífsins þar sem kastljósinu var beint að því hvernig hægt sé að bregðast rétt og tímanlega við einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum – svokölluðum EKKO-málum. Fjölbreytt erindi og málefnalegar pallborðsumræður vöktu athygli fundargesta þar sem lögð var áhersla á sameiginlega ábyrgð fyrir heilbrigt vinnuumhverfi.

Maj-Britt Hjördís Briem, lögfræðingur á vinnumarkaðssviði SA, sá um fundarstjórn og byrjaði fundinn á að segja frá samstarfsverkefni sem Vinnueftirlitið leiðir með það að markmiði að koma í veg fyrir að EKKO-mál komi upp – og tryggja rétt viðbragðsferli.

Adriana Pétursdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Rio Tinto, flutti erindi með raunverulegum dæmum úr atvinnulífinu sem sýndu hversu flókin og viðkvæm EKKO-mál geta verið fyrir bæði þolendur og gerendur – og hvernig þau geta haft langvarandi áhrif á traust og almennan starfsanda. Hún dró fram að skortur á réttu verklagi eða faglegri aðkomu geti haft langvarandi áhrif, meðal annars á orðspor vinnustaða. Einnig kom fram að ólík viðbrögð aðila, líkt og stéttarfélaga, geri málin enn flóknari.

Þorsteinn Sveinsson, sérfræðingur á kjaramálasviði VR, vakti athygli á því að ein stærsta áskorun vinnustaða í dag séu mannleg samskipti. Hann gagnrýndi að núverandi reglugerðir geri það að verkum að of seint sé gripið inn í mál, og benti á að skortur á markvissri fræðslu og upplýsingum geri starfsfólki erfitt fyrir að leita réttra leiða. Hann lagði áherslu á að vinnustaðir eigi að skapa skýra og raunhæfa áætlun um öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi – og að slíkar áætlanir verði hluti af stefnumótun og samningum á vinnumarkaði. Einnig varpaði hann kastljósinu á skyldur atvinnurekenda í þessum málum og að það sé ólíklegra að einelti, áreitni og ofbeldi þrífist á vinnustöðum sem séu með stefnu og aðgerðaáætlun í þessum málum.

Frá sjónarhóli stjórnenda fjallaði Helga Lára Haarde, ráðgjafi og sálfræðingur frá Attentus, um hvernig greina megi EKKO-mál á vinnustað og hvaða aðferðir geti virkað best í fyrstu viðbrögðum. Hún undirstrikaði mikilvægi þess að stjórnendur taki ekki afstöðu í upphafi heldur hlusti af virðingu og fagmennsku og upplýsi um viðbragðsáætlanir og stefnu vinnustaðarins í slíkum atvikum. Hún segir að það sem virki best sé þegar starfsfólk skynji að þau beri sameiginlega ábyrgð á að skapa öruggt og heilbrigt umhverfi – og að sú vegferð hefjist á viðhorfum og hegðun hvers og eins.

Í pallborðsumræðum fór umræðan enn dýpra, meðal annars um ólíka menningarheima og atvik sem gerast utan hefðbundins vinnustaðar, til dæmis í stafrænu umhverfi. Þar kom einnig fram að mannauðsstjórar þurfi að stíga varlega til jarðar þegar ábendingar berast (viðrun) – því aðgerðarleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækin. Mikilvægt sé að hafa skýrar væntingar til starfsfólks um æskilega hegðun, frekar en að leggja áherslu á hvað sé bannað.

Í tilefni fundarins viljum við benda á sérstakt skapalón sem Samtökin hafa þróað fyrir EKKO-mál sem er aðgengilegt hérna á heimasíðu samtakanna. Við hvetjum félagsmenn til þess að hugsa leiðir um hvernig sé hægt að gera góðan vinnustað enn betri.

Hér er skapalón fyrir stefnu gegn EKKO.

Hér er umfjöllun um EKKO á vinnumarkaðsvefnum.

Hér er að finna stoðefni Vinnueftirlitsins fyrir EKKO-mál handa stjórnendum og starfsfólki.

Hér er samskiptasáttmáli sem mörg fyrirtæki hafa nýtt sér.

Samtök atvinnulífsins