07. maí 2024

Starfsmenn fjármálafyrirtækja semja um stöðugleika

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Starfsmenn fjármálafyrirtækja semja um stöðugleika

Langtímasamningur hefur verið undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Byggir samningurinn á Stöðugleikasamningnum sem undirritaður var í mars við meirihluta félaga á almennum vinnumarkaði. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.

Tengt frétt

Stöðugleikasamningur í höfn
Lesa meira

Stöðugleikasamningurinn styður markmið samningsaðila um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Af því leiðir að kaupmáttur eykst, aukinn fyrirsjáanleiki verður í efnahagslífinu, dregið er úr verðbólguvæntingum og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs styrkist. Slíkur stöðugleiki er eitt stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á óvissutímum.

Verkefnið er ekki búið

Stöðugleikasamningurinn markaði vatnaskil á vinnumarkaði þar sem hóflegum launahækkunum til fjögurra ára er ætlað að skapa skilyrði fyrir stöðugleika.

Stöðugleiki kemur hins vegar ekki af sjálfu sér þrátt fyrir góða niðurstöðu kjarasamninga. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningar verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi, en ekki öfugt. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð og vera samtaka. Þannig er hægt að ná tökum á verðbólgunni og eygja von um lækkun vaxta.

„Það er afar ánægjulegt að klára kjarasamninga við starfsmenn fjármálafyrirtækja og þá ekki síst að ná sameiginlegum skilningi á verkefninu framundan. Nú er tíminn til þess að tileinka okkur nýja nálgun til þess að verja lífskjör og skapa skilyrði fyrir fjárfestingu í frekari verðmætasköpun. Staðan í viðræðum við FFR og Sameyki þessa dagana er bæði erfið og alvarleg, hún sýnir hvar brugðið getur út af í þeim samningum sem eftir eru. Hversu miklar launahækkanir samræmast verðstöðugleika eru ekki endilega augljósar hagstærðir en eftir mikla vinnu í síðustu kjaralotu náðum við saman um það í tímamótasamningum. Okkur ber saman að standa vörð um þá niðurstöðu, öðruvísi náum við ekki langþráðum stöðugleika. “ - segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hér má kynna sér efni samnings SA við fjármálastarfsfólk:

Samningur SA við SSF

Samtök atvinnulífsins