02. maí 2024

Stöðugleiki kemur ekki af sjálfu sér

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stöðugleiki kemur ekki af sjálfu sér

Samtök atvinnulífsins lögðu mikið kapp á það með viðsemjendum sínum í vetur að gera langtímakjarasamning sem gæti byggt undir efnahagslegan stöðugleika. Það er hins vegar ekki þannig að stöðugleiki komi af sjálfu sér. Hann krefst mikillar festu og samstöðu. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningarnir verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð. Þannig náum við tökum á verðbólgunni og sköpum aðstæður fyrir lækkun vaxta.

Í ljósi þess hófu Samtökum atvinnulífsins nú á dögunum eftirfylgni sína við kjarasamningana undir yfirskriftinni Stöðugleikarnir. Stöðugleikarnir hófust með vel sóttum fundum á Akureyri og í Reykjavík. Þar lagði atvinnulífið, ásamt stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði og stjórnvöldum, línurnar um hvernig Stöðugleikasamningnum skuli fylgt eftir. Hvernig tryggja skuli efnahagslegan stöðugleika.

Stöðugleikarnir á Akureyri

Stöðugleikarnir hófust með vel sóttum fundi í Hofi norður á Akureyri. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, opnaði fundinn og fjallaði síðar um stöðuna á vinnumarkaði. Stefanía Ásbjörnsdóttir, hagfræðingur á efnahagssviði, fór yfir stöðuna og horfur í efnhagsmálum.

Allir þurfi að auka skilvirkni í rekstri

Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, flutti hugvekju á fundinum þar sem hann áréttaði að allir þyrftu að axla ábyrgð svo hægt væri að ná verðstöðugleika. Allir hlekkir aðfangakeðjunnar þurfi að horfa til hagræðingar og aukinnar skilvirkni.

„Dæmi um þetta eru að verðið á mjólk hefur hækkað um 24,5% síðan haustið 2022 og verð á lambalæri hefur hækkað um 41% - þá er ég að tala um í innkaupum, ekki útsöluverð. Við sjáum alveg að svona prósentuhækkanir ganga ekki upp til lengdar. Þær ganga í rauninni ekki upp punktur.“

Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.

Til að bregðast við þessari stöðu hafi Samkaup sent erindi á alla sína þjónustuaðila þar sem þeir eru hvattir tli að líta inn á við og hagræða í rekstri. Þá hafi félagið einnig sent erinindi um að það muni fleyta lægri verðum út í verðlagið. Því miður hafi undirtektirnar verið of litlar. Samkaup hafi lækkað verð á þeim vörum sem verslunin flytji inn sjálf, í þeirri viðleitni að sporna gegn verðbólgu, en það megi sér lítils.

Lokaorðin mín í dag eru því stöndum öll saman til hagsbóta fyrir alla.

Tengir ekki við græðgisverðbólgu

Vilborg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri og kaupmaður í Centro á Akureyri, flutti hugvekju um hvernig tryggja megi stöðugleika frá sínum sjónarhóli. Í tilfelli hennar reksturs séu það tvö lykilatriði sem skipti máli, en þau hafi ekki breyst síðan hún hóf rekstur fyrir þremur áratugum síðan – stöðugt verðlag og samkeppnishæft starfsumhverfi. Í því sambandi sagði Vilborg dæmisögu af buxum sem verslunin hefði verið með í mörg ár. Buxurnar kosti 8.990 krónur og hafi gert það frá því þau byrjuðu að selja þær.

„Þegar verðlagið hækkar sífellt, líkt og undanfarin ár, og skattarnir fara einnig hækkandi þá eykst þrýstingurinn á verðið á þessum buxum, en við munum leitast við að sporna gegn því. Þess vegna þykir mér líka svo afar leitt að heyra í kvöldfréttum að sumir aðilar eru tilbúnir að skella skuldinni af hækkandi verðlagi undanfarinna ára á atvinnurekendur. Græðgisverðbólga er ekki hugtak sem ég tengi við og þessar buxur eru ágætt dæmi um það.“

Vilborg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Bravo og kaupmaður í Centró.

Vilborg lauk hugvekjunni á orðum ömmu sinnar, Ingibjargar Gissurardóttur sem var fædd árið 1888, elst 17 systkina og hörkukona.

Starfsdagurinn hefur oft verið langur og strangur, en hver dagur hefur verið mér sigurdagur.

Leiðin felist í aðhaldi, samstöðu og úthaldi

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga, og Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI og varaformaður SA, tóku þátt í umræðum á fundinum undir stjórn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI og varaformaður SA, Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar og Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Þátttakendur í pallborðinu voru sammála um að sú hugmyndafræði sem unnið var eftir við gerð þessa kjarasamnings hafi verið farsæl. Leiðin í átt að efnahagslegum stöðugleika felist í aðhaldi samstöðu og úthaldi.

„Við teljum okkur vera búin að búa til umhverfi sem geri það að verkum að fjögurra ára langtímasamningar haldi. Við verjum þennan kaupmátt, við búum til aðstæður þar sem verðbólgan fer niður og vöxtur okkar þróttmikla efnahagslífs býr til ný verðmæti inn í næstu ár til að standa undir þessari kaupmáttaraukningu sem verður.“

- Sigurður Ingi Jóhansson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson tók þátt í pallborðsumræðum.

„Þessi fyrirsjáanleiki og lengri tíma áætlanir eru algjör grunnur að því að við náum að halda stöðugleika hérna. Ég held að það sé lykillinn að því að við náum niður verðbólgunni, sem er okkar sameiginlega verkefni í dag.“

- Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

„Samtök atvinnulífsins þurfa að sýna stjórnvöldum aðhald. Það eru mörg fyrirtæki sem kvarta mikið undan öllum þessum álögum sem eru lögð á atvinnulífið í dag af hinu opinbera. Ég skil það vel að mörg minni fyrirtæki séu að kikna undan þessu.“

- Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Stöðugleikarnir í Reykjavík

Eftir góðan fund fyrir norðan fóru Stöðugleikarnir fram í Hörpu í Reykjavík degi síðar. Sigríður Margrét opnaði fundinn og fjallaði síðar um vinnumarkaðinn. Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, fór yfir stöðuna í efnahagsmálum og launaþróun á milli markaða.

Gangverk atvinnulífsins

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, flutti hugvekju um gangverk atvinnulífsins – hvernig rekstrarkostnaður og verðlag hangir saman og hvernig verð á markaði myndast. Hann tók dæmi um verðlagningu á ólífuolíu, sem mætti í grófum dráttum skipta í þrennt. Það er í fyrsta lagi hlutur framleiðenda, í öðru lagi hlutur heildsala og í þriðja lagi hlutur smásala.

Þessi framlegð er svo nýtt til að greiða kostnað við rekstur og það er ekki óalgengt að eftir standi tvær til þrjár krónur, eða 2-3% af afkomu þegar allt er talið og þokkalega vel gengur í smásölunni.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga.

„Hérna má gera ráð fyrir vöru sem kostar 100 kall út úr búð. Þá má ætla að hráefnisframleiðendur og framleiðendur endanlegrar neytendavöru, ásamt dreifingaraðilum, standi á bakvið um 50 krónur af þessum 100. Framlegð í heildsölu á Íslandi er svo um það bil 30%, þannig að þar bætast við 30 krónur til viðbótar. Að lokum leggur verslunin á áður en varan er seld. Framlegð í Högum er í kringum 20% í dag, en sambærileg fyrirtæki hérlendis eru að vinna á framlegð í kringum 23 – 25%. Þessi framlegð er svo nýtt til að greiða kostnað við rekstur og það er ekki óalgengt að eftir standi tvær til þrjár krónur, eða 2-3% af afkomu þegar allt er talið og þokkalega vel gengur í smásölunni.“

Ekki einkamál fárra aðila

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, flutti hugvekju um leiðina að stöðugleika og aðdraganda þess að félagið ákvað að frysta verð í hálft ár.

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko.

„Við í Byko gerðum okkur vel grein fyrir því að sökum stærðar okkar og ábyrgðar þyrftum við að taka af skarið. Við viljum miklu frekar vera á holóttum vegi í skamman tíma, heldur en að búa við þetta landslag til lengri tíma. Við framkvæmdastjórnarborðið ræddum við þetta og veltum því á milli okkar hvað skiptir mestu máli. Það skiptir auðvitað mestu máli að ná fram stöðugleika og við eigum að hafa þar áhrif. Við getum beitt okkur í þeirri von að aðrir fylgi í kjölfarið vegna þess að þetta getur aldrei orðið einkamál fárra aðila.“

Jónína Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Coripharma, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigríðar Margrét.

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Vilhjálmur Birgisson , formaður Starfsgreinasambandsins og Jónína Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Coripharma, tóku þátt í umræðum á fundinum undir stjórn Sigríðar Margrétar.

Þar var mikið rætt um að enn væri ósamið á opinberum vinnumarkaði og lögðu þátttakendur í umræðunum ríka áherslu á að launastefnunni, sem mótuð hefði verið á almennum vinnumarkaði í vetur, yrði fylgt.

Vilhjálmur Birgisson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

„Aðgerðum sem tóku ekki bara til­lit til þeirra sem voru að semja á al­menna markaðnum, held­ur líka op­in­bera markaðar­ins. Við erum því búin að segja hvað við get­um gert. Það er búið að senda út merkið. Þetta er það sem að all­ir geta samið um og verða að semja um.“

- Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Þess vegna tek ég undir að það er gríðarlega mikilvægt að við, sem erum núna í samningum, höldum okkur við merkið. Það er ekkert annað í boði.“

- Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur.

„Það þarf að horfa á heildarpakkann þegar verið er að tala um að jafna laun á milli almenna og opinbera markaðarins. Því miður hefur það verið þannig í gegnum árin og áratugina að hið opinbera hefur verið leiðandi í kjarastefnu á íslenskum vinnumarkaði, enda eru réttindin hjá hinu opinbera margfalt betri heldur en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.“

- Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.

Stöðugleikarnir á Aukureyri | Stöðugleikarnir í Reykjavík

Samtök atvinnulífsins